23.2.2009 | 12:35
Framboð
Þá er teningnum kastað, þegar ég kom heim frá Frankfurt á fimmtudaginn var var hringt í mig og ég hvött til að gefa kost á mér í póstkosningu til framboðslista Framsóknarflokksins á Suðurlandi .
Fram að því hafði ég ekki leitt hugann að því að þessar kosningar hefðu neitt með mig að gera persónulega en hafði fylgst með og fannst þessi aðferð póstkosning fremur geðfelld leið, stutt snörp barátta sem skilur kannske ekki eftir mikil sár og leiðindi sem löngum og ströngum prófkjörum hættir til að gera svo maður tali ekki um kostnaðinn.
Hef svo sem reynslu bæði af uppstillingum og prófkjörum til sveitastjórnarkosninga og alþingiskosninga.
Bæjarstjórnarkosningarnar 1978 í Hafnarfirði þar var uppstilling og ég í 3 sæti .
Alþingiskosningarnar 1983 hart prófkjör,kosnaðarsamt og erfitt og við misstum eina þingmanninn sem við höfðum haft og ég í 4 sæti, þó sá árangur að við sáum þá í fyrsta sinn 2 karla og 2 konur í fyrstu fjórum sætunum.
Næstu alþingiskosningar þar á eftir færði Steingrímur Hermannsson þáverandi formaður flokksins sig frá Vestfjörðum til Reykjaneskjördæmis til að bjarga málum og við fengum 2 menn inn.
Prófkjörið þá var mjög hart og að minu mati ósanngjarnt en svona eru prófkjör þau eru í raun strákaleikur sem henta þeim betur en konum en hvað um það ef þú tekur þátt í leiknum þá verður þú að sætta þig við reglurnar.
Bæjarstjórnarkosningarnar 1990 í Kópavogi prófkjör meðal flokksmanna í Kópavogi.
Við Sigurður Geirdal í fyrstu 2 sætunum , frábærlega skemmtileg kosningabarátta,ég var þá
formaður íbúasamtaka Engihjalla þar sem bjuggu jafnmargir og í Borgarnesi.
Nýr meirihluti myndaður með Sjálfstæðisflokki sem stendur enn eftir mesta uppbyggingartímabil sögunnar í Kópavogi.
Var formaður Félagsmálaráðs, í stjórn lista og menningarráðs , öldrunarráðs og vinabæjarnefndar .
Við fengum jafn marga í nefndum og Sjálfstæðismenn og jafn marga á meirihlutafundum.
Fannst þegar þarna var komið sögu,nóg komið af sjálfboðavinnu fyrir flokkinn minn og sneri mér alfarið að uppbyggingu fyrirtækja sem ég stofnað auk þess að snúa aftur að námi sem varð endasleppt hjá mér eins og fleirum konum af minni kynslóð vegna barneigna og uppeldisstarfa sem
var alfarið á okkar höndum á þeim tíma. En ég hef verið þeirra gæfu aðnjótandi að eignast 6 börn og þar að auki 3 stjúpbörn ásamt því að við hjónin en maðurinn minn heitir Bergþór G Úlfarsson eigum samtals 20 barnabörn. Þar að auki strykjum við 2 börn í Nairobi í Kenya sem við greiðum fyrir mat og námskostnað en það áhugamál okkar er að byggja upp skóla fyrir munaðarlaus börn www.byflugur.blog.is.
Að loknu námi í Flensborgarskóla þar sem ég lauk lands og gagnfræðaprófi hóf ég eftir nokkurt hlé nám í snyrtifræði og lauk því árið 1970.
Þar sem ég var kosin í sveinsprófsnefnd fyrir snyrtifræðinga en ég sat í stjórn Félags íslenskra snyrtifræðinga og var framkvæmdastjóri þeirra samtaka á þeim tíma þegar við börðumst fyrir því að fá löggildingu á starfstéttina fannst mér ég þurfa að bæta við mig námi og settist á skólabekk á ný í Fjölbrautarskóla Breiðholts og þar tók við Menntaskólinn í Hamrahlíð auðvitað allt í kvöldskóla með fullu starfi ásamt uppeldis og heimilsstörfum .
Þá tók við Brautargengi sem er nám fyrir konur í eigin rekstri sem stóð í 2 ár en ég var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist.
Þar næst opnaðist frábær möguleiki sem var Stjórnendaskólinn í Háskólanum í Reykjavík en þar er endalaust hægt að bæta við þekkingu í rekstri og hverju því sem maður er að fást við. Búin að ljúka nokkrum námskeiðum þar og á fleiri eftir.
Fyrsta fyrirtækið mitt stofnaði ég þegar ég bjó á Húsavík og opnaði þar snyrtistofu sem ég seldi þegar ég flutti þaðan og hún lifir enn.
Þar næst tók við Heildverslunin Ison sem enn í dag starfar en hún var seld 1989 .
Heildverslunin Inga sem núna heitir heildverslunin Óm og blómstar.
Prófaði líka útflutning en stofnaði ásamt syni mínum Atlantsfisk ehf sem flutti út fisk .
Heildverslunin Hjölur var svo stofnuð 1997 en ég sit þar í stjórn sem meðeigandi eftir að hafa selt meirihlutann í fyrirtækinu haustið 2007.
Sama á við um Snyrtiakademíuna sem rekur 4 skóla á snyrti og heilbrigðissviði.
Snyrtiskólann sem er einkarekinn skóli á framhaldsskólastigi og Fótaaðgerðaskóli Íslands sem á sama hátt er á framhaldsskólastigi báðir reknir samkvæmt námsskrá frá Menntamálaráðuneytinu og
fá nemendur námslán frá LÍN.
Naglaskóli Professionails og Förðunarskólinn sem eru reknir í námsskeiðsformi.
Starfaði sem Framkvæmdastjóri Landssambands framsóknarkvenna og Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi um það leiti sem framsóknarkonur börðust hvað harðast fyrir stöðu sinni í flokknum sem þykir sjálfsagt hálfgerður brandari í dag miðað við hve jafnrétti kynjanna þykir sjálfsagt í okkar ágæta flokki en þetta fékkst ekki baráttulaust. Kenndi fundarsköp og ræðumennsku í 2 vetur vítt og breytt um landið bæði á vegum landssambandsins og Sambands sunnlenskra kvenna.
Núna starfa ég sem verkefnisstóri hjá Matarklasa Suðurlands og Vestmannaeyja en við erum studd af Vaxtarsamningi Suðurlands.
Ásamt því að vera framkvæmdastjóri í nýstofnuðu félagi Bjarkarhóll ehf sem mun annast innflutning á vörum fyrir bændamarkaði sem fyrirhugað er að halda á Suðurlandi.
Að lokum þetta.
Framsóknarflokkurinn er í mínum huga eins og stórfjölskylda manns, manni geðjast ekki alltaf að öllu sem hún gerir en maður elskar hana eins og hún er og að tilheyra þessari fjölskyldu eru forréttindi. Þegar maður upplifir atburði eins og síðasta flokksþing þar sem verður þvílík endurnýjun á svo sjálfbæran hátt að það minnir mann á vorið þegar allt endurnýjar sig þá langar mann að leggja hönd á plóg og draga vagninn með fjölskyldunni .
Til þess gef ég kost á mér í þetta framboð.
22.2.2009 | 09:04
Fátt er svo með öllu illt......
Nú líkar mér við ykkur fjölmiðlamenn.
Góðar fréttir snúast um að finna jákvæða fleti á málum þannig að lesendum líði vel.
Húrra fyrir ykkur.
Minna húðkrabbamein vegna fækkunar ferða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2009 | 17:57
Vorfiðringur
Það er svo undarlegt þegar snjóinn leysir og hitastigið hækkar hve náttúran er snögg í gang.
Fór út í garð í dag og viti menn undir vegg í skjóli við húsið kúrir lítil sjálfssáin stjúpa og hefur staðið af sér frost og snjóa í allan vetur og skammt frá henni fífill sem er líka í skjóli hússins að byrja að kíkja á tilveruna.
Annarsstaðar hafa Páskaliljurnar stungið sér upp úr moldinni og eru svei mér þá að mynda knúppa.
Brum farið að sjást á sumum trjánum , vonandi fáum við ekki slæma frostakafla í bráð til að skemma þessa litlu vorboða.
Sáði inni fyrir steinselju, dilli, basiliku og mintu .
Það er svo merkilegt hvað smáir hlutir geta glatt hjartað og mikilvægt að beina sjónum sínum daglega að þessu smáa sem lyftir okkur upp úr eymdinni sem fjölmiðlar keppast við að viðhalda með því að velja helst dómsdagsviðmælendur sem eru einmitt þann daginn í svartsýniskasti.
Ekki það að vandamálin hverfi en við þurfum alla okkar jákvæðu orku og kraft til að takast á við þau og trúna á að við getum það.
Við ætlum okkur í gegn um þetta tímabil og gerum það saman.
13.2.2009 | 16:50
Kreppan læðist
Fyrstu þrjá mánuði eftir bankahrunið heyrði maður oft fólk utan Stórreykjavíkursvæðisins fullyrða að það væri engin kreppa hérna, góðærið var aldrei á landsbyggðinni.
En nú finnst manni hún kreppa kerlingin vera að læðast að okkur hérna í uppsveitum, maður heyrir menn úr verktakabransanum tala um að verkefni sem þeir töldu sig geta gengið að vísum fram á vor hafi verið falin fjölskyldumeðlimum sem hafa misst vinnuna á höfuðborgarsvæðinu.
Kannske við sjáum aftur fagfélögin berjast fyrir því að menn af viðkomandi svæði sitji fyrir um vinnu þá sem er að hafa. Hvernig er það er það ekki bannað samkvæmt ESB samningnum, mega ekki allir vinna allsstaðar á ESB svæðinu.
Bara að Alþingi fari nú að drífa í því að samþykkja frumvarp um endurgreiddan virðisaukaskatt af viðgerðum og viðhaldi húsa þó að það dragi skammt ef það á aðeins að gilda fram í júní og kannske að hanga í þinginu ósamþykkt fram yfir kosningar.
Það er erfitt að vera bjartsýnn í öllu þessu bölmóðstali alla daga í fjölmiðlum.
Sumir hafa alveg hætt að horfa og hlusta á fréttir.
Ágætu fjölmiðlamenn viljið þið vera svo vænir að hafa 50% góðar fréttir alla daga þær eru til ef þið talið við rétta fólkið þetta ástand fer svo illa með geðheilsu fólks.
Við íslendingar erum vön að bjarga okkur út úr svona vandræðum þó að þau hafi sjaldan verið af stærri gráðu en núna og hvað erum við bættari með að vita nákvæmlega hverjum er um að kenna nema til þess að vita hvað við eigum ekki að kjósa næst.
Að lokum, Valentínusardagurinn er greinilega á næsta leiti, til allrar hamingju bættist enn einn skyldu blómagjafadagur við svo að garðyrkjubændur hafi meiri sölu og við getum glaðst yfir fegurð blómanna.Í tilefni þess lítið ástarljóð.
Ástin
Haltu ástinni
mjúklega í höndum þínum
leyfðu henni að flögra
sem litfögru fiðrildi
því ef þú heldur fast
kremur þú vængi hennar
og hún getur ekki flogið meir
og deyr.
Haltu ástinni
mjúklega í höndum þínum
sem nýorpnu eggi
því ef þú heldur fast
brotnar skurnin
og hún rennur
milli fingra þinna
og hverfur.
10.2.2009 | 18:12
Skjótt skipast veður í lofti
Ósköp er að heyra þegar fjölmiðlar og það meira að segja RUV ríkisfjölmiðillinn slær því upp sem hörmungarfrétt þegar tveir duglegir heimilisfeður fara til Noregs að vinna.
Það er eins og það hafi aldrei gerst áður að íslenskir iðnaðarmenn fari til nágrannalandanna í atvinnuleit þegar enga vinnu er tímabundið að hafa hér.
Muna menn ekki þegar Kochums í Svíþjóð réð heilu flugvélafarmana af iðnaðarmönnum sumarlangt 1969 .
Sumir urðu lengur og aðrir settust að í það minnsta tímabundið, ekki þótti það tiltökumál þá að konur urðu eftir heima með börn og bú enda þurfa togarasjómannskonur að lifa við þetta alla tíð og enginn vorkennir þeim.
Ég kann ekki við það þegar fjölmiðlar gera fólk að fórnarlömbum sem eru gerendur í sínu lífi og kunna að bjarga sér.
Ekki höfum við verið að vorkenna Pólverjunum sem þræluðu hérna sl 2 ár til að halda uppi hagvextinum í hinu skuldsetta góðæri okkar .
Heima hjá þeim biðu konur og börn sem áttu engra annara kosta völ.
Skjótt skipast nú veður í lofti.
7.2.2009 | 15:08
Brettum upp ermarnar.
Merkilegt nokk berast núna meiri upplýsingar úr Seðlabankanum og frá skilanefndum bankanna um stöðu mála, kannske af því þær liggja núna fyrst fyrir, en guð láti gott á vita að við nálgumst brátt að hafa vitneskju um hvað gerðist í okt 2008, hver er staðan og hverjum er um að kenna.
Látum þá sem það hefur verið falið að vinna úr því, en nú þarf hver maður að líta í eigin barm og skoða hvar hann stendur í þessum hrunadansi og hvað hann getur gert á sínum heimavelli.
Bankarnir bjóða upp á þjónustu fyrir heimilin til að skipuleggja sína stöðu og vinna úr henni með þeim tækjum sem tiltæk eru og fyrirtækin líta kannske ráðstafanir ríkisstjórnarinnar augum innan skamms.
Þá er að líta til þess sem vel gengur og hvað við getum gert með það sem við höfum í höndum og kostar kannske ekki mikið að nýta til atvinnusköpunar og aukinna tekjumöguleika svo ekki sé talað um gjaldeyrissköpunar. Fer þá ekki vel á því að talsmenn 80 daga ríkisstjórnarinnar séu að draga úr þjóðinni kjarkinn og vonina um fleiri störf með yfirlýsinum um persónulegt álit sitt á ráðstöfunum til aukinna atvinnumöguleika sem felast í hvalveiðum og álversframkvæmdum á Bakka.
Stjórnarflokkar þeir sem núna eru við völd eru ekki áskrifendur af atkvæðum landsmanna í næstu kosningum og mun það ráðast af framtaksemi þeirra þessa 80 daga sem er ekki langur tími og virðist heldur ekki mikill vinnufriður frekar en fyrri daginn á hinu háa Alþingi þar sem barist er alla daga um orðalag og hver á þetta og hver á hitt. Ekki mikil umhyggja þar fyrir hinum almenna borgara sem fær kvíðaköst og svefnlausar nætur þegar mánaðarmót nálgast og spurnigin um hvaða reikninga verður hægt að greiða og hvort nóg sé til fyrir mat handa börninum.
En nóg um þetta, eitt stendur upp úr sem gefur okkur mikla möguleika strax í vor og það er ferðaþjónustan . Í janúar 2009 komu 84 þúsund erlendir ferðamenn til landsins og þó að það sé 28 % fækkun frá því í fyrra snýst þetta kannske ekki fyrst og fremst um fjölda heldur hvað þessi hópur skilur eftir á landinu af fjármunum. Það má gefa sér að stór hluti þessara ferðamanna hafi farið Gullna hringinn og í sumar má gera ráð fyrir að mikill meirihluti íslenskra ferðamanna kjósi að eyða sínu sumarfríi á landinu sínu fremur en að ferðast erlendis.
Bókanir hjá ferðaþjónustuaðilum á Suðurlandi eru almennt góðar og gefa vonir um gott ferðasumar.
Matarklasi Suðurlands og Vestmannaeyja vinnur nú að metnaðarfullum verkefnum fyrir vorið þar sem veitingahús og matvælaframleiðendur munu taka höndum sama um að bjóða upp á Hefðir úr héraði þar sem veitingar úr sunnlensku hráefni og uppskriftum verða sérstaklega merktar með logo sem sýnir hvar slíkar veitingar verða á boðstólum. Suðurland býður upp á mjög fjölbreytta matvælaframleiðslu allt frá grænmeti, mjólkurvörum, fisk úr hafinu, ám og vötnum, kjötvörum þar sem á boðstólum er allt nema hreindýr og selur að segja má. Þar sem ferðamannastraumur um Suðurland er stöðugur allt árið vegna Gullna hringsins og allra sumarhúsanna sem fólk notar núna allan ársins hring þurfa að vera opnir bændamarkaðir þar sem fólk getur keypt grænmeti, nýtt og niðursoðið, sultur og önnur matvæli sem bændur framleiða beint frá býli ásamt fjölbreyttu handverki.
Þarna getum við boðið því fólki sem misst hefur vinnuna ásamt þeim sem hyggja á framleiðslu, aðstöðu með sínar vörur til að kynna þær, þróa og kanna áhuga markaðarins á þeim.
Verið er að kanna aðstöðu á fjórum stöðum á Suðurlandi þar sem mikil umferð er og aðstæður eru góðar við þjóðveginn.
Eflaust koma fleiri staðir til greina og gott væri að heyra frá þeim sem hafa slíka aðstöðu upp á að bjóða.
Notum það sem við eigum, búum til það sem við kunnum eða förum á námskeið og lærum það.
Björgum okkur sjálf því fyrr sem við brettum upp ermarnar og förum að slást fyrir tilbveru okkar og barnanna okkar því betra, þar kemur enginn og bjargar okkur nema við sjálf.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2009 | 14:39
Slagur í sandkassa.
Hörmulegt er að sjá til hinna háu herra á þingi slást um það hverjum beri heiðurinn af frumvörpum þeim sem verið er að leggja fram eftir langan tíma á meðan heimilinum og fyrirtækjunum blæðir.
Ráðstafanir sem allir sjá að eru löngu tímabærar og fráfarandi ríkisstjórn hafði ekki döngun í sér til að koma í verk, hverju sem um er að kenna.
Skammist ykkar og komið ykkur nú saman um að afgreiða strax mál sem gætu komið í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja nóg er nú samt.
Þetta er eins og stórslys þar sem þrír sjúkrabílar mæta og menn fara að slást um hver á að bjarga hinum slösuðu á meðan blæðir þeim út.
Hvergir bólar á upplýsingum um hvernig vinna skal bug á atvinnuleysinu annaðhvort hafa fjölmiðlar miklu meiri áhuga á að upplýsa okkur um misvísandi umsagnir stjórnarherranna um hin einstöku mál, hverjir séu á móti álverum og hverjir með ,hverjir á móti hvalveiðum og hverjir með, halló þessi stjórn situr bara í 80 daga og á ekki að móta neina langtímastefnu yfirleitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.2.2009 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 23:05